For the first time, Hjardartun has a team in the Champions league 2020. This event has been the strongest sport competition since 2007 and is extremely popular in Iceland as well as abroad. Captain of our team is Helga Una Björnsdóttir and the other members are: Elvar Thormarsson, Hans Thor Hilmarsson, Jakob Svavar Sigurdsson and Thorarinn Ragnarsson.

Helga Una Björnsdóttir Liðsstjóri

Útskrifaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum árið 2018. Helga Una er reynslumikill knapi og hefur skapað sér gott orð bæði á keppnisbrautinni sem og kynbótabrautinni. Helga Una setti heimsmet á Sendingu frá Þorlákshöfn sumarið 2015 þegar hún sýndi hana í 8,64, sem var þá hæsta aðaleinkunn sem klárhross hafði hlotið. Helga Una var tilnefnd til kynbótaknapa ársins 2019. Helga Una hefur einnig náð góðum árangri í ræktun og vakti hún mikla athygli á hesti sínum Bikari frá Syðri-Reykjum. Helga Una varð einnig Íslandsmeistari á Besta frá Upphafi í 100metra skeiði og á Þoku frá Hamarsey í slaktaumatölti árið 2019. Helga Una starfaði við tamningar og þjálfun í Hjarðartúni eftir útskrift frá Hólum en hefur nú flutt sig í Fákshóla.

Hans Þór Hilmarsson

Hans Þór Hilmarsson er menntaður reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum. Hann starfar við tamningar og þjálfun í Hjarðartúni en Hansi hefur náð góðum árangri á keppnis- og kynbótabrautinni. Var m.a. 4. sæti í A-flokki LM2012 á Lottu frá Hellu, Hansi átti besta tímann á árinu 2015 í 100 metra skeiði á Heru frá Þóroddsstöðum og var í A-úrslitum í fimmgangi á Íslandsmóti árið 2016 á Lukku-Láka frá Stóra-Vatnsskarði. Hans Þór sigraði 150 m skeiðið í Meistaradeildinni árið 2019 á Vorsól frá Stóra-Vatnsskarði.

Jakob Svavar Sigurðsson

Jakob Svavar Sigurðsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann hlaut knapaverðlaun Félags tamningarmanna á LM2008, Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2010, 2012 og 2013, Íslandsmeistari í fimmgangi 2012 og 2013 á Al frá Lundum og Íslandsmeistari í fjórgangi 2013 á Eldi frá Köldukinn. Jakob sigraði B flokkinn á LM2016 á Nökkva frá Syðra-Skörðugili, varð í þriðja sæti í A flokki á Skýr frá Skálakoti og hlaut knapaverðlaun FT. Hann hefur jafnframt verið að gera góða hluti í kynbótasýningum. Jakob var kosinn íþróttaknapi ársins 2012, 2013 og 2018 og gæðingaknapi ársins 2016. Jakob sigraði einnig einstaklingskeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Sjarmatröllið Jakob heillaði Helgu Unu liðstjórann okkar upp úr hnakknum í fyrra þannig að hún flutti sig um set úr Hjarðartúni yfir á Fákshóla þar sem þau skötuhjúin reka glæsilega tamningarstöð.

Elvar Þormarsson

Elvar Þormarsson er nágranni okkar og stundar tamningar og þjálfun á Hvolsvelli og ræktar ásamt fjölskyldu sinni hross kennd við Strandarhjáleigu. Elvar hefur verið ötull á keppnisvellinum sem og kynbótabrautinni síðustu ár og var meðal annars kosinn knapi ársins 2018 hjá Geysi. Strandarhjálega var einnig kosin ræktunarbú ársins 2019 hjá Geysi þannig að uppskeran hjá Elvari síðustu árin hefur verið frábær.

Þórarinn Ragnarsson

Þórarinn Ragnarsson er menntaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hann stundar þjálfun og tamningar í Vesturkoti á Skeiðum. Hann hefur náð góðum árangri á keppnisbrautinni en hann sigraði m.a. A-flokk á LM2014 á Spuna frá Vesturkoti og var í A-úrslitum í tölti á sama móti á Þyt frá Efsta-Dal. Þórarinn og Spuni urðu einnig Íslandsmeistarar í fimmgangi árið 2017 og sigruðu sömu grein á Reykjavíkurmótinu sama ár. Þytur og Þórarinn sigruðu einnig þá alla sterkustu sem og Ístöltsmótið, sem haldið var vorið 2014. Þórarinn var valin gæðingaknapi ársins 2014. Þórarinn er í sambúð með Huldu Finnsdóttir og reka þau tamningarstöð og hrossarækt í Vesturkoti. Hulda og Bjarni Elvar eru þremenningar, en þeirra forfeður eru frá Vík í Mýrdal.

People Block

Champions league  – Photo from Petra Lönnqvist