Kristín Heimisdóttir og Bjarni Elvar Pjetursson og fyrirtæki þeirra Einhyrningur ehf sem kennt er við hið formfagra fjall á Fljótshlíðarafrétti, keyptu Hjarðartún árið 2015. Þau eru bæði tannlæknar að mennt. Kristín er sérfræðingur í tannréttingum og lektor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands auk þess að reka eigin tannlæknastofu í Urðarhvarfi. Bjarni Elvar er sérfræðingur í tannholdslækningum og munn- og tanngervalækningum, prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi deildarforseti. Hann rekur einnig tannlæknastofu í Urðarhvarfi ásamt félögum sínum. Kristín er auk þess smali Laufaleita, sem eru fjárleitir Rangvellinga.
Hvorki Kristín né Bjarni Elvar eru alin upp í hestamennsku, en eins og hjá svo mörgum kviknaði áhuginn á hestamennsku í gegnum börnin. Þegar þau voru í framhaldsnámi í Sviss fékk Gréta Rut, dóttir þeirra, óhemju mikinn áhuga fyrir hestum og fór reglulega í reiðtíma með vinkonu sinni. Fjölskyldan fór í hestaferðir um hálendi Íslands með góðum vinum í sumarfríinu og eftir að þau fluttu heim til Íslands tóku þau hesta á hús í Reykjavík og síðar í Hafnarfirði. Fjölskyldan eignaðist sinn fyrsta hest, gráa hryssu sem skírð var Schneeglocke af dótturinni upp á þýsku, sem í beinni íslenskri þýðingu útleggst Snjóbjalla. Fyrst íslenskra hryssa til að bera það nafn. Ekki fer miklum sögum af ættum hennar né aldri. Tæpum tuttugu árum síðar hefur hestunum fjölgað í tæplega 70 og hestamennska og hrossarækt á hug fjölskyldunnar. Þau hjónin rækta hross undir nafni Hjarðartúns og byggir ræktunin á hryssum frá Hjarðartúni sem og frá Sæla, Ragnheiði og Önnu Fíu í Eystra-Fróðholti, með höfuðáherslu á að rækta undan langræktuðum gæðingshryssum.



Kristín Heimisdóttir [email protected]

Bjarni Elvar Pjetursson [email protected]
